Það eru allskonar flækjur sem geta komið upp og ein af þeim er hvað á að gera ef makinn eignast óvænt mikla peninga s.s. arf. Í dag þegar eignir hafa hækkað gífurlega í verði og barnsfæðingum fækkað þá getur fólk verið að erfa jafnvel tugi milljóna. Einnig gæti makinn átt eign sem hann selur og flytur svo til hins makans. Þá er gífurlega mikilvægt að taka samtalið.
Ef makinn sem selur eignina ætlar að setja peningana inn í eign hins sem hann á ekkert í, þá er gífurlega mikilvægt að tryggja sína hagsmuni. Ef þú greiðir upp húsnæðislánið eða ferð í dýrar framkvæmdir á eign hins, t.d. endurnýjar eldhúsið og byggir pall þá þarftu að skoða hvaða tryggingu hefur þú fyrir því að þú fáir þennan pening til baka ef það slitnar upp úr sambandinu.
Eðlilegast væri að þú fengir eignarrétt í fasteign makans í hlutfalli við framlag þitt. Ef fólk er gift og með sameiginlegan fjárhag þá er samt gott að skoða þetta í heild sinni. Er sá sem fékk arfinn jafnvel heimavinnandi og tekjulaus. Þá getur verið mikilvægt að hugsa um framtíðar fjárhagslega hagsmuni þar sem það er mjög ósanngjarnt ef annar aðilinn setur sinn arf inn í sameiginlegt samband, það slitnar upp úr því og aðilinn sem hagnaðist fær síðar sinn arf greiddan að fullu.
Stundum er hægt að gera arf að séreign með erfðaskrá. Peningagjöf án skilyrða til maka er alltaf eitthvað sem þarf að ræða mjög vel og vandlega og ef þetta eru stórar upphæðir þá gæti verið eðlilegt að gera samning sín á milli hvað á að gera komi til skilnaðar eða sölu á eign.
Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.
asdis@husaskjol.is - Sími: 863 0402