fimmtudagur 28.07.2022

9 náttúrulegar leiðir til að halda illgresinu í skefjum

Blessað illgresið getur verið erfitt viðureignar og þrálátt. Við tökum garðinn í gegn að vori en nokkrum vikum seinna er oft allt komið í sama farið aftur. Sem betur fer eru ýmsar leiðir til að sporna við þessum öra vexti og að sjálfsögðu viljum við hafa þær náttúrulegar.

Kurl

Lag af viðarkurli, stráum, afskornu grasi, laufum og furunálum þétt yfir moldinni kemur í veg fyrir vöxt illgresis því þá fær það ekki birtuna sem það þarf til vaxa. Auk þess heldur það rakanum í moldinni. Extra bónus er svo að þegar kurlið brotnar niður gerir það moldina næringarríkari.

Dagblöð

Settu þykkt lag af dagblöðum yfir moldina í kringum plönturnar, vökvaðu og stráðu svo mold yfir. Þá kemst ekki ljós að því illgresi sem fyrir er í jörðinni og þau sem reyna að festa rætur í yfirborðsmoldinni geta það ekki því moldin er of grunn. Eins og með kurlið þá brotna dagblöðin niður og gefa jarðveginum næringu.

Pappi

Pappi virkar jafnvel betur en dagblöð en hann er ein áhrifaríkasta leiðin til að koma í veg fyrir illgresi á náttúrulegan máta. Hins vegar getur hann verið erfiður í meðförum vegna þykktar sinnar. Auk þess hleypir hann ekki vatni vel í gegn. Hann er hins vegar frábær lausn á svæðum eins og göngustígum þar sem þú ert ekki með blóm eða aðrar plöntur.

Plantaðu þétt

Ef þú plantar strjált þá á illgresi auðvelt með að vaxa en ef þú plantar þétt og í röð þá myndar það skugga á stóru svæði og minnkar umfang á vexti óæskilegs gróðurs.

Edik

Plöntum er illa við edik, því er gott ráð að gera edikblöndu í spreybrúsa og spreyja á þær plöntur sem þú vilt ekki hafa í garðinum þínum. Mikilvægt er að passa að það fari ekki á þær plöntur sem þú vilt hafa. Edikblandan drepur illgresið alveg niður að rót en það þarf að endurtaka leikinn með stærri og sterkari plöntur. Virkni ediksins er mest í sól, það lætur plönturnar þorna upp í hitanum. Til er svokallað landbúnaðar edik sem er sterkara en heimilisedik. Ef þú kemst ekki yfir það þá virkar heimilisedikið líka ágætlega.

Sjóðandi heitt vatn

Settu ketilinn yfir og helltu yfir þær plöntur sem þú vilt losna við úr garðinum. Passaðu bara að heita vatnið fari ekki yfir þær plöntur sem þú vilt hafa.

Eldur

Við vitum öll að eldur drepur plöntur. En hvað ef við gætum bara kveikt í óæskilegu plöntunum. Própan kyndill er góð leið til að kveikja bara því sem þú vilt eyða. Hann hentar líka mjög vel á illgresi sem vex á milli gangstéttahellna og í sprungum á innkeyrslum. Hér er þó lykilatriði að fara varlega og nauðsynlegt er að hafa garðslönguna við hendina ef eitthvað fer úrskeiðis.

Sólsetning

Þetta ráð er gott þegar sýna á svolitla fyrirhyggju og er hægt að nota fyrir beð annað hvort fyrir sumarið eða eftir sumarið. Þá eru beðin vökvuð og síðan breytt yfir þau með svörtu plasti. Við þetta myndast heit gufa þegar vatnið gufar upp undir ábreiðunni sem verður til þess að illgresið eða arfinn deyr. Þessi aðferð gerir líka út af við óæskilegar bakteríur og sveppagróður. Mælt er með að hafa plastið yfir í alla vega 30 daga áður plantað er fyrir hámarks árangur.

Salt

Plöntum er illa við salt og það því frábær leið að strá salti þar sem þú vilt alls ekki hafa gróður eins og meðfram grindverkinu eða á milli gangstéttarhellna. Við mælum þó ekki með saltinu inn í garðinum sjálfum þar sem þar viljum við jú hafa moldina gróðursæla fyrir aðrar plöntur.

 

Burðarmynd eftir Jonathan Farber on Unsplash

Mynd af jarðaberum eftir Farsai Chaikulngamdee on Unsplash

 


Aðrar færslur