fimmtudagur 19.05.2022

Vorverkin

Nú þegar að hlýna fer og sumarið handan við hornið er ekki seinna vænna en að fara huga að vorverkunum. Eflaust eru margir hverjir nú þegar farnir að hefjast handa enda er það yfirleitt þannig hér á skerinu góða að um leið og maí gengur í garð er eins og það lifnar yfir öllum, bæði mönnum og görðum. Hér verður farið yfir nokkur vel valin vorverk.

GARÐURINN

Eftir veturinn liggja greinar, lauf og mosi hér og þar í beðum og á grasflötinni og er það yfirleitt það fyrsta sem fólk tekur sér fyrir hendur. Þegar frost er farið úr jörðu er mosinn yfirleitt laus og auðvelt að fjarlægja hann með grashrífu. Eftir það er gott að stinga aðeins með gaffli til að mynda loft fyrir kalkið sem er dreift á grasið. Kalkið spornar við því að mosi myndist. Því næst er gott að safna saman laufblöðum og greinum, bæði af grasfleti og úr beðum til að fara með í urðun. 

Þær greinar sem liggja við jörðu eru teknar en aðrar greinar snyrtar til í takt við eðlilegt vaxtarlag runnanna. Kalkinu er svo dreift yfir og beðið í viku þangað til að lokum er borinn áburður á grasið. Dæmi um áburð er Blákorn eða lífrænn áburður eins og þörungamjöl eða búfjáráburður, best er að bera á tilbúinn og lífrænan áburð á víxl. Munið að dreifa honum vel til að fyrirbyggja að áburður og kalk safnist saman í hrúgur en það getur brennt grasið. Áburður er borinn á í þurru veðri og einu sinni í mánuði í maí, júní og júlí.

HÚSIÐ

Allar eignir þurfa einhverskonar viðhald og er um að gera að dekra vel við vissa hluti til að halda þeim vel við. Til dæmis gluggana. Þrífa þarf gluggana vel að innan sem utan. Best er að gera það á sólarlausum degi og þegar taka skal gluggana að utan er gamalt og gott húsráð að nota volgt vatn og dagblöð til að þrífa þá. Það svínvirkar! 

Ástandið á gluggakörmunum geta verið mismunandi eftir staðsetningu húss og hliðum og því er staðan tekin á því hvort það þurfi að mála eða ekki. Því næst er gott að þrífa þakrennurnar og taka ástandsskoðun á þeim. 

Sumir eru með byggt yfir eða í kringum ruslafötur og er upplagt að þrífa vel viðinn í kringum þær. Þar safnast oft fyrir rusl og jafnvel búið að myndast grænn bjarmi á viðinn þar sem að hann stendur úti yfir allan veturinn. Þá er gott að grípa í Viðar grámahreinsinn og þrífa vel þar sem á við. Hann er líka góður á viðarhúsgögn á lóð og/eða palli. Þar sem er stétt á lóð myndast oft mosi eða ýmis gróður farinn að kíkja upp á milli hella. Þá er gripið í garðklóna og rifið upp og hreinsað. Gott að klára með háþrýstidælu, hún virkar vel á mosann og þá ætti stéttinn að vera orðin fín. Ef þú ert í miklu stuði þá er gott að taka bílskúrinn í gegn og auðvitað draga fram öll útihúsgögnin.

RÆKTUN

Á Íslandi þurfum við að forrækta flestar þær nytjaplöntur sem við ræktum. Hægt er að kaupa forræktaðar plöntur á öllum garðplöntustöðvum. Það getur verið mikil kúnst að sá fyrir fræjum og fá upp úr því tilbúna plöntu fyrir gróðursetningu. Forræktun tekur yfirleitt um 3-6 vikur. Á meðan á forræktun stendur er gott að undirbúa vel beð eða ræktunarkassa fyrir komandi sumar. Velja skal sólríkan og skjólstæðan stað og best er að nota góða gróðurmold. 

Það eru ýmsir skemmtilegir valkostir þegar kemur að eigin garðræktun og ber þá helst að nefna kartöflur, gulrætur, blómkál, og kál. Kryddjurtirnar þurfa vel undirbúinn og næringarríkan jarðveg þar sem er gott skjól og sólríkt. Margir koma sér uppi góðu kryddjurtarhorni og svalir eru til dæmis tilvaldar í þessa ræktun. 

Einærar kryddjurtir sem nýtast yfir sumarið eru til dæmis dill, kóríander og radísur en fjölærar jurtir sem koma upp aftur næstu sumur ef gætt er vel af þeim yfir veturinn eru til dæmis piparmynta, graslaukur, blóðberg og sítrónumelissa. Að lokum er hægt að forrækta vorlauka, dalíur, stjúpur og liljur til dæmis og koma þeim svo fyrir í vel völdu beði. Það jafnast ekkert á við það en að eyða góðum vorkvöldum úti í garði með hendurnar ofan í moldarbeði, góð jarðtenging og frábær útivera.

PALLURINN EÐA SVALIR

Áður en að hægt verður að setjast niður í kvöldsólinni og njóta til dæmis yfir góðum mat eða eiga gott spjall í góðra vina hópi þarf að lappa upp á setusvæðið. Ef það eru svalir þá þarf að taka góða hreinsun. Gera ástandsskoðun á handriði og sjá hvort það þurfi að bera á eða mála. Þeir sem að eru með stálhandrið sem á er  farið að myndast ryð er hægt að setja matarsóda í vatn og pússa ryðið af. 

Ef það er pallur á lóðinni þinni þá er mismunandi eftir hvaða pallaefninu hvort það þurfi að bera á eða ekki. Flestir gera það annað hvert ár. Ef grillið er búið að vera úti er gott að hreinsa það vel. Að lokum er að draga fram sumarhúsgögnin og njóta!


Aðrar færslur