Nóvember 2020 - Verðhækkanir í mikilli veltu

Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu heldur áfram að hækka en það hækkaði um 1,0% í september. Þar með er árstakturinn kominn upp í 5,6% en hann hefur ekki verið hærri síðan undir lok árs 2018. Undanfarnar verðhækkanir hafa átt sér stað í mikilli veltu en 882 kaupsamningar voru undirritaðir á höfuðborgarsvæðinu nú í september og leita þarf aftur til ársins 2007 til að finna viðlíka veltu. Þar að auki er meðalsölutími fasteigna orðinn stuttur í sögulegu samhengi skv. HMS en það á jafnt við ódýrar sem dýrari eignir.

Heimildir: Þjóðskrá Íslands og Greiningardeild Húsaskjóls

Ef litið er á verðþróun eftir hverfum má sjá að mesta hækkunin í september var í Mosfellsbæ en Árbær fylgir fast á eftir. Fermetraverðið í miðbænum var 19% hærra en á höfuðborgarsvæðinu í heild sinni en en fermetraverðið er áfram lægst í Breiðholtinu og Hafnarfirði.

Heimildir: Verðsjá Þjóðskrár. Taflan gefur vísbendingu um verðþróun

En er eðlilegt að húsnæðisverð haldi áfram að hækka þegar að við horfum (að öllum líkindum) fram á mesta samdrátt í hagkerfinu frá því mælingar hófust? Almennt atvinnuleysi fór upp í 9% nú september og 18.400 einstaklingar því að fullu atvinnulausir. Leita þarf aftur til 2010 til að sjá slíkar tölur og nánast öruggt að atvinnuleysi mun ná nýju hámarki í vetur. Sögulega lágir vextir hafa aftur á móti stutt við markaðinn en lágir vextir og mikið atvinnuleysi endurspeglast líka í því að leiguverð hefur lækkað um tæp 2% síðan í janúar.

Heimildir: Þjóðskrá, Vinnumálastofnun og Greiningardeild Húsaskjóls.

Atvinnuleysið virðist hins vegar hafa lítil áhrif á útlánavilja og líklega ræður mikil lækkun á greiðslubyrði miklu þar um. Fólk hefur verið að greiða upp verðtryggð lán hjá lífeyrissjóðum og tekið óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum í miklu mæli hjá bönkunum. Bankarnir lánuðu nettó út 156 ma.kr. frá júní til september sem er meira en allt árið 2019.

Heimildir: Seðlabanki Íslands og Greiningardeild Húsaskjóls

Húsnæðismarkaðurinn á Íslandi hefur verið sterkur það sem af er þessari öld en þó líka býsna sveiflukenndur. Það skýrist m.a. af því hversu seigfljótandi framboð á nýjum fasteignum er. Byggingartími fasteigna er u.þ.b. tvö ár og því geta aðstæður á markaði gjörbreyst frá því að byggingaraðili ákveður að byggja þar til eignin fer á sölu sem getur bæði leitt til offramboðs og skorts á íbúðarhúsnæði. Ný talning Samtaka iðnaðarins á íbúðum í byggingu sýnir verulegan samdrátt á íbúðum í byggingu, sér í lagi á fyrstu byggingarstigum. Það er óhætt að segja að 47% samdráttur í skammt komnum íbúðum í byggingu geri skort á íbúðum eftir tæplega tvö ár líklegri en offramboð að öðru óbreyttu.

Heimildir: Samtök iðnaðarins og Greiningardeild Húsaskjóls

Íslendingar hafa almennt haft mikla trú á steypu og lágir innlánsvextir um þessar mundir fegra fasteignir sem fjárfestingarkost fyrir almenning. Horft fram á við mun húsnæðisverð halda áfram að stýrast af útlánavilja banka og lífeyrissjóða, áhrifum faraldursins á atvinnuleysi og vaxtaumhverfinu. Halldór Kári Sigurðarson Hagfræðingur