Þú kynnist í raun aldrei fólki fyrr en kemur að því að skipta peningum og það á sérstaklega við um þegar skipta á dánarbúi eða við skilnað.
Oft heldur fólk að það sé allt í góðu milli aðila á meðan reiðin kraumar undir. Það er algengt að annar makinn sé kominn lengra í ferlinu og vill jafnvel kaupa nýja eign áður en búið er að skipta búinu.
Við þessar aðstæður vil ég bara ráðleggja eitt. Ekki setja þig í þá aðstöðu að hinn aðilinn geti beitt þig óeðlilegum þrýstingi. Ef það er ekki búið að gera formlegan fjárskiptasamning og þú festir þér nýja eign og ert háður greiðslum úr fyrri eign þá gæti makinn sett inn allskonar skilyrði þegar hann veit að þú ert komin í pressu með að selja núverandi eign. Hann gæti t.d. neitað að skrifa undir tilboð nema hann fái meira í sinn hlut en þú, t.d. þið eigið eign 50% og hann vill hafa skiptin 60/40 ef hann á að samþykkja tilboð.
Hann gæti farið fram á hærra meðlag, meiri umgengisrétt og svo framvegis. Hann gæti hreinlega neitað að skrifa undir fjárskiptasamning og tafið skilnaðinn í eintómum leiðindum.
Það getur tekið á að missa af draumaeigninni þegar þú ert að klára skilnað en það er ekkert miðað við álagið sem fylgir því að vera í fjárhagslegri gíslingu fyrrverandi maka.
Þannig að mín ráðlegging er einföld. Ekki gera nýja fjármálagerninga fyrr en þú ert búinn að klára fjárskiptasamninginn og allt er frágengið hjá sýslumanni. Ég hef séð mýmörg dæmi þess að fólk reyni að kúga fyrrverandi maka í óeðlileg fjárskipti af því að það hefur trompin á sinnihendi. Þannig að ekki gefa fyrrverandi maka tromp á hans hendi og það er alltaf ódýrara að fá formlega lögfræðiráðgjöf frekar en að skrifa undir óeðlileg fjárskipti út af tímapressu.
Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.
asdis@husaskjol.is – 863 0402