fimmtudagur 23.05.2024

Þarf alltaf að svara kauptilboði?

Þegar kaupandi gerir kauptilboð þá hefur seljandinn 3 valmöguleika. Hann getur samþykkt tilboðið, hann getur gert gagntilboð og hann getur hafnað því. Ef seljandinn gerir gagntilboð þá liggur boltinn hjá kaupanda sem getur þá samþykkt, hafnað eða gert gagntilboð.

Við ráðleggjum yfirleitt að svara tilboðum en ekki hafna þeim þar sem það eru meiri líkur á því að aðilar nái saman ef báðir sýna samningsvilja. Oft byrjar kaupandinn á því að gera lægra tilboð en hann er í raun og veru tilbúinn að greiða fyrir íbúðina. Ef hann byrjar mjög lágt þá er viðbúið að seljandinn svari jafnvel með hærri tölu en hann vill loka tilboðinu á og svo tekur við smá laxveiði.

Það má gera eins mörg tilboð og gagntilboð og fólk vill. Ef seljandinn hafnar kauptilboði frá kaupanda þá má kaupandinn alltaf leggja fram annað tilboð kjósi hann að gera það. Það er hins vegar ekki þannig að kaupandinn geti alltaf lagt inn hvaða tilboð sem er. Stundum eru tilboð þess eðlis að þau eru það lág að seljandinn gæti ekki tekið þeim þó að hann vildi.

Stundum eru skilmálarnir þannig að seljandinn getur ekki samþykkt þá, t.d. afhending við kaupsamning ef seljandinn á eftir að finna sér eign. Langfarsælast er að spyrja fasteignasalann hvort að það sé eitthvað sem skiptir seljandann miklu máli, s.s. afhending eða greiðsluskilmálar og reyna að mæta þeim eins og kostur er.

Það er samt algengur misskilningur að fasteignasali verði að taka niður öll tilboð sem berast. Stundum er seljandinn búinn að segjast ekki taka við tilboði undir ákveðinni upphæð og stundum eru mörg tilboð í gangi og þá er tilgangslaust að vera að leggja inn tilboð sem er miklu lægra en önnur tilboð sem eru komin.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402Aðrar færslur