fimmtudagur 30.05.2024

Getum við verðmetið fasteign á einni mínútu

Það komu nokkrar athugasemdir á TikTok að verðmat væri nú lítið mál og tæki ekki nema eina mínútu á Procura og Aurbjörg. Ég virðist vera að vinna þetta kolrangt þar sem verðmatið hjá Húsaskjóli tekur allt að 3 tíma.

Við byrjum á því að keyra á staðinn og skoða eignina vel og vandlega, við tökum myndir og lýsingu og fáum nauðsynlegar upplýsingar frá seljanda sem skipta máli s.s. um viðhald eða væntanlegt viðhald. Ef dýrar framkvæmdir eru fyrirhugaðar þá hefur það áhrif á verðmatið. Við notum margar breytur til að verðmeta eignina.

Verðmatið er sett upp í excel og við berum saman eignir sem eru í sölumeðferð og nýlegar sambærilegar seldar eignir. Við framreiknum viðkomandi eign miðað við vísitölu og hvers virði hún væri í dag og einnig hvort að seljandinn hafi staðið í kostnaðarsömum framkvæmdum.

Við skoðum Procura, Aurbjörg, Lasershark, Fasteignamat, verðsjá fasteigna,fastinn.is og verdsaga og að lokum beitum við jafningjarýni sem fer þannig fram að fasteignasalinn sem skoðaði eignina kynnir hana á verðmatsfundi Húsaskjóls þar sem eru viðstaddir 3-5 löggiltir fasteignasalar. Við förum yfir eignina og skoðum myndir og verðmatsskjalið.

Ef kaupendur eru í vafa um hvort að viðkomandi fasteign sé rétt verðlögð þá ætti þeim að vera í lófa lagið að biðja fasteignasalann sem er að selja eignina að senda sér verðmatsskjalið og sjá hvaða forsendur liggja að baki verðmats umræddar fasteignar.

Varðandi að nýta eingöngu Procura í verðmat þá kemur skýrt fram á heimasíðu Procura að Verðgreining Procura er reiknuð tala sem byggir ekki á sjónskoðun heldur reikniverki og margir þættir geti haft áhrif á endanlegt söluverð sem eingöngu er hægt að meta með sjónskoðun.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402Aðrar færslur