fimmtudagur 04.12.2025

Er skynsamlegt að yfirverðleggja eignina sína?

Það gerist alltaf reglulega að fólk vill fá yfirverð fyrir eignina sína og rökin sem það notar er að þeim liggi ekkert á og geti beðið eftir rétta verðinu. Ég mæli alltaf með því að fara inn á markaðsvirði þar sem eignir sem eru yfirverðlagðar munu að öllum líkindinum liggja á fasteignavefjum án þess svo mikið sem að fá skoðun og ef einhver skoðar þær þá eru allar líkur á því að seljandinn fái dónatilboð.

Kaupendur í dag eru með gífurlega mikla verðvitund enda auðvelt að sjá hvað eðlilegt söluverð á fasteign ætti að vera. Það er hægt að fara inn á www.verdsaga.is og sjá hvað hún seldist á síðast og framreikna hana. Það er hægt að sjá hvað sambærilegar eignir hafa selst á og einnig er hægt að sjá inn á www.fastinn.is og sjá hvernig hún leit út síðast og hvaða endurbætur seljandinn hefur gert.

Ég mat eign um daginn og okkar mat var 55 M. Seljandanum fannst þetta ansi lágt mat hjá okkur og ákvað að hann vildi fá hæsta mögulega verðið og vildi fá 61 M sem væri 9% yfir fasteignamati næsta árs. Vandamálið þarna er að fasteignasala ber að gæta hagsmuna bæði kaupanda og seljanda og setja inn eign sem er 10% yfir mínu verðmati er í besta falli kjánalegt.

Ef kaupandinn spyr mig hvers vegna verðið ersvona hátt þá er eina svarið sem ég hef, já sko mitt verðmat var 55 M en seljandinn vildi 10% yfir því og hans verðmat er 61 M.

Þetta virkar kannski í þetta korter sem seljandamarkaðurinn er en núna er kaupandamarkaður og þá er frekar ólíklegt að þessi tækni virki.

Þannig að mín ráðlegging er að ef þú vilt fá ákveðið verð fyrir eignina þína og það er langt yfir markaðsvirði í dag, bíddu þá með að setja hana inn þar til hún verður rétt verðlögð.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggildur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is – 863 0402



Aðrar færslur