fimmtudagur 17.03.2022

Skipulag og endurbætur áður en flutt er í nýtt hús

Við vitum öll að það tekur á að flytja og getur verið mjög stressandi að flytja í nýtt hús, sérstaklega þarf að gera endurbætur og verkefnalistinn verður yfirþyrmandi langur. Lykillinn að því að allt gangi smurt og valdi fjölskyldunni lágmarks óþægindum þegar flutt er milli húsa er að undirbúa sig vel. Ef þú fylgir eftirfarandi verkefna lista næst þegar þú flytur þá mun það spara þér hellings vesen tíma og fé!

Mikilvægt er að skoða þessi atriði í nýkeyptu húsnæði

Gakktu í gegnum rýmið, og punktaðu niður hvað á að fara hvar? Sumir t.d. rissa upp rýmið. Er tækifæri til að gera endurbætur? Er gólfefni og ofnakerfi orðið lélegt? Væri sniðugt að setja gólfhita. Það sparar pláss en er breyting sem er erfitt að gera eftir að flutt er inn. Þetta á einnig við um innra skipulag. Er þörf fyrir að bæta við herbergi eða opna á milli rýma? Ef svo er þá er gott að vera ekki búin að skipta um gólfefni fyrr en rýmishönnun sé klár. Í eldri húsum er oft ekki nægilegt rafmagn og þá er gott að nýta tækifærið og fræsa út fyrir rafmagni og pípum á milli rýma sérstaklega ef það á að taka hraunuð loft. Stundum finnst gamall panill í loftum og er ómögulegt að gera breytingar á því eftir á.

Ofnakerfi - Rafmagnskerfi - Pípulagnir - Skólp - Rýmishönnun - Gólfefni

Verk sem spara tíma og vinnu fyrir flutninga

Mála veggi og innréttingar

Það er ótrúlegt hvað ferskt lag af málningu getur gert fyrir rýmið. Málning eyðir lykt fyrrum eiganda og gerir rýmið strax að þínu. Best er að mála herbergin tóm og kosturinn við að mála fyrir flutninga er að þú þarft ekki að búa við málningarlykt og öllu sullinu sem því fylgir. Í sumum eldri húsum þá er oft möguleiki á að mála innréttingar og hurðir og við mælum með að skoða það. Mundu að val á málningu snýst ekki bara um litinn. Einnig er hægt skoða mismunandi áferðir, t.d. gljástig. Sparsláferðir eru vinsælar í dag hægt er að sjá ýmsar útfærslur í næstu sérhæfðu málningarverslun. Mundu að fá prufur og mátaðu liti og áferðir inn í rýminu sjálfu. 

Það sem gott er að hafa í huga við val á lit fyrir rými

Geymslu- og skápa pláss

Er hægt að bæta við rými eða skápaplássi í nýja heimilið. Er pláss fyrir alla skó og úti fatnað? Er mikið loft pláss til að bæta við auka hillum og nýta rýmið betur? Einnig er gott að skoða þvottaaðstöðu og athuga hvort pláss sé fyrir þvottagrind og að hengja upp föt til þornunar. Kannski væri líka hægt að uppfæra hillukerfi í geymslunni sem myndi nýtast fjölskyldunni betur.

Það eru margir sem ætla sér að flokka allt dótið sitt þegar búið er að flytja en gott ráð er að byrja ferlið um leið og hafist er handa við að pakka niður. Vera með poka fyrir rusl og kassa fyrir hluti og fatnað sem má gefa áfram.

Rauði Krossinn tekur á móti fatnaði og Góði hirðirinn tekur á móti húsgögnum í gegnum Sorpu. 

Eldvarnir

Mikilvægt er að skoða vel allar eldvarnir, hvar er næsta slökkvitæki og eldvarnarteppi og að allir fjölskyldumeðlimir viti hvar útgönguleiðir liggja. Skipta út batteríum í reykskynjurum og prófa alla reykskynjara í húsinu. Þeir sem elda með gasi þurfa að passa að skynjarinn á heimilinu sé einnig gasskynjari. Fyrir þá sem eru heppnir að hafa arinn eða gasarinn inni hjá sér er mikilvægt að skoða hvaða varúðarráðstafanir séu til staðar og hvort það sé kominn tími til að hreinsa.

Skipta um lása

Besta leiðin til að tryggja öryggi er að skipta strax um lása á íbúð og geymslum. Það er aldrei að vita hver er með lykil að húsinu þínu. Þú getur þá verið öruggur og sofið betur. Athugaðu vel læsingar á gluggum, hurðum, svalahurðum, bílskúrshurðum og fleira. Þetta á auðvitað ekki alltaf við og þarf hver og einn að taka ákvörðun út frá fyrrum eigendum og sögu húsnæðisins.

Fyrir flutninga

Að byrja að pakka

Þegar flutningsdagur nálgast er gott að byrja að flokka heimilið, ákveða hvað á að gefa og hvað á að henda. Það er óþarfi að pakka dóti sem þú þarft ekki á að halda.

Þú getur sparað þér pening með því að fá kassa gefins hjá stórfyrirtækjum. Vínkassar úr ríkinu eru góðir fyrir bækur og aðra litla þunga hluti. Bananakassar eru mjög handhægir, þá sérstaklega fyrir brothætta hluti. Síðan hafa bláu pokarnir úr IKEA staðið sig mjög vel fyrir föt og aðra mjúka hluti. Það er mjög sniðugt að setja ruslapoka yfir föt sem hanga og binda í um herðatréð. Gott er líka að nýta allar ferðatöskur og stórar íþróttatöskur til að pakka niður.

Settu saman einfalt plan fyrir merkingar á kössum og húsgögnum svo það sé mjög skýrt hvað á að fara hvar. Merktu alla kassa með nafni eða lit og sömuleiðis í nýja húsinu að merkja hvert svæði með sama kerfi. Þá eiga allir sem leggja hönd í plóg í flutningunum auðveldara með að setja húsgögn og kassa á rétta staði.

Að lokum er mjög sniðugt að velja eina ferðatösku fyrir allar nauðsynjar sem fjölskyldan þarf að nota næstu 2 sólarhringa við og eftir flutninga. Þar er gott að setja veski, snyrtivörur, tannbursta og tannkrem, lyf, bleyjur, handklæði og þvottapoka. Tvö sett af fötum, hleðslutæki, tölvur og annað sem fjölskyldan á erfitt með að lifa án.

Verðmæti

Ráðlagt er að fara vel yfir tryggingar fyrir flutningana og passa að flutningarnir séu tryggðir. Gott er að taka myndir að dýrmætum hlutum og senda á tryggingafélagið sitt.

Skráningar

Listaðu upp þá staði sem þarf að gera breytingar á. T.d. breyta heimilisfangi í þjóðskrá, heimasíma/interneti, rafmagni/hita, pósthús og öryggiskerfi. Enn og aftur er mikilvægt að færa allar tryggingar á nýtt heimilisfang og fá það skriflegt að flutningarnir séu komnir í gegn.


Aðrar færslur