miðvikudagur 19.07.2023

HVAÐ ÞÝÐIR HÆRRA FASTEIGNAMAT?

Hækkað fasteignamat þýðir því yfirleitt hærri fasteignagjöld. Reyndar hafa sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu fyrir utan Reykjavík lækkað álagninguna á móti þannig að hækkunin verður mun minni.

Það geta samt falist tækifæri í hækkuðu fasteignamati og ég mæli eindregið með því að skoða hvort það sé rými til endurfjármögnunar með hækkandi fasteignamati. Það skiptir sérstaklega miklu máli fyrir þá sem tóku 70-80% lán þegar þeir keyptu þar sem aukalánið er með vaxtaálagi. Ef hækkunin er orðin það mikil að allt lánið rúmast innan grunnlánsins er hægt að lækka vextina umtalsvert og jafnvel stytta lánið sem nemur lækkun afborgunar.

Þegar fasteignamat hækkar þá hafa seljendur tilhneigingu til að vilja setja hærra verð á eignina og þegar fasteignamat lækkar þá hafa kaupendur tilhneigingu til að vilja bjóða lægra í eignina. Það er samt mikilvægt að hafa í huga að það er hálft ár þar til matið tekur gildi.

Ef þú vilt setja eignina þína inn á yfirverði til að næla þér í hækkunina sem kemur eftir hálft ár þá mæli ég með því að bíða fram á haust með því að setja í sölu. Kaupendur hafa mikla verðvitund í dag og ef eignin er yfirverðlögð þá má allt eins búast við því að þeir nenni ekki að skoða eignina hvað þá að leggja inn tilboð í hana.

Ef þér finnst fasteignamatið orðið of hátt á þinni eign miðað við ástand og staðsetningu þá er hægt að fara fram á endurmat á eigninni.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Aðrar færslur