fimmtudagur 14.09.2023

Hvað skiptir máli við afhendingu fasteignar ?

Afhending fasteignar er skurðpunkturinn á milli kaupanda og seljanda. Þegar kaupandi fær fasteignina afhenta þá tekur hann við öllum skyldum og kvöðum varðandi eignina. Hann byrjar að borga rekstrarkostnað af eigninni. s.s. fasteignagjöld, hita, rafmagn, hússjóð og þess háttar.

Seljanda ber að afhenda íbúðina vel þrifna og hann ber ábyrgð á því að láta lesa af hita og rafmagn og senda þær upplýsingar áfram á orkufyrirtækin sem og að tilkynna eigendaskipti til húsfélagsins.

Það er gífurlega mikilvægt fyrir kaupanda að skoða eignina mjög vel eftir afhendingu og ef hann hefur einhverjar athugasemdir þá að koma þeim strax til seljanda. Algengt er að fólk mæti í afsal með athugasemdir um að íbúðin hafi verið mjög illa þrifin og vilji fá afslátt. Það er hins vegar of seint þar sem kaupandinn er búinn að eyða “sönnunargögnunum” og gaf ekki seljanda færi á að bæta úr annmarkanum.

Samkvæmt lögum ber kaupanda að upplýsa seljandann um meinta galla og gefa honum tækifæri á að bæta úr gallanum. Kaupandi getur því ekki lagað gallann einhliða, tekið myndir og farið fram á afslátt eða bætur ef seljandinn var ekki upplýstur. Það er einnig mjög mikilvægt að upplýsa um galla um leið og þeirra verður vart. Að mæta 2-3 mánuðum eftir afhendingu og kvarta yfir bilaðri eldavél eða lekum krana er of seint. Hins vegar þegar um er að ræða stærri galla er að ræða þá hefur kaupandi lengri tíma þar sem hann getur auðvitað ekki kvartað yfir gallanum fyrr en hann verður hans vart eins og t.d. að það rigni inn um stofugluggann í brjálaðri norðvestanátt í mestu haustlægðunum. 

Ef kaupandi tilkynnir ekki gallann þegar hans verður vart þá getur hann verið uppvís að tómlæti og þegar hann vill fá bætur þá getur það verið of seint.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402



Aðrar færslur