fimmtudagur 02.03.2023

Hjálp, það vantar fermetra í íbúðina mína!

Ég er búin að vera fasteignasali í 20 ár og ég man alltaf eftir því þegar fyrsti kaupandinn hringdi mjög æstur í mig og vildi vita hvers vegna íbúðin sem hann var að kaupa væri miklu minni en ég sagði að hún væri. Ég skildi ekki hvernig stóð á því þar sem ég var að nota opinberar upplýsingar um stærð íbúðarinnar.

Þetta var fyrsta nýbyggingin sem ég seldi og kaupandinn var að fara að kaupa gólfefni og skoðaði teikningar til að sjá hvað hann þurfti mikið af gólfefnum. Ég skoðaði þetta og ég fékk algjört áfall. Það vantaði helling af fermetrum og ég gat ekki fyrir mitt litla líf ímyndað mér hvar þeir voru. Hversu mikið gat ég klúðrað einni sölu og þetta var sko ekki ein sala, ég seldi 10 íbúðir í þessu húsi.

Ég sá fyrir mér persónulegt gjaldþrot þegar kaupendur færu í skaðabótamál við mig. Ég svaf ekki vel þessa nótt. Svo datt mér í hug að það væri best að hringja í Fasteignamat ríkisins, þeir voru jú með þessa skráningu. Ég lenti á yndislegri konu sem útskýrði þetta fyrir mér eins og ég væri 5 ára. Stærð íbúðar sem er gefin upp í opinberum gögnum er utanmál íbúðar, sem sagt útveggir og milliveggir á meðan teikningar sýna innanmál íbúðar. Það var þungu fargi af mér létt, það get ég sagt ykkur.

Þannig að næst þegar fermetrar týnast í íbúðinni þá er gott að hafa í huga að það er yfirleitt mikill kostur að eiga útveggina og jú líka innveggina til að stúka af herbergi nema þú viljir búa í einu opnu rými.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402Aðrar færslur