fimmtudagur 16.11.2023

Hver á inneign í framkvæmdasjóði?

Allar eignir sem eru ekki sérbýli eru í skilningi laganna fjölbýli þar sem ytra byrði er alltaf sameign. Ef þú býrð í fjöleignarhúsi þá er til húsfélag. Það er svo misjafnt hvort að húsfélagið sé starfandi eða ekki. Ef þetta er eru fáir eignarhlutar, s.s. parhús eða raðhús er algengt að það sé ekki starfandi húsfélag og hver sér um sinn eignarhlut. Stærri húsfélög eru hins vegar alltaf með húsfélag og þau geta verið nokkur. Það getur verið húsfélag fyrir stigaganginn, bílskýlið, lóðina og heildarhúsfélag sem er húsfélagið sem sér um allar stærri framkvæmdir að utan. 

Flest húsfélög safna í framkvæmdasjóð og vel rekin húsfélög eiga yfirleitt fyrir framkvæmdum þannig að eigendur borga kannski 10-15.000 á mánuði í framkvæmdasjóð og þegar kemur að því að fara í gluggaskipti er jafnvel til fyrir þeim.

Þegar íbúð er seld þá tilheyrir þessi sjóður alltaf íbúðinni og húsfélaginu. Seljandinn getur ekki farið fram á að fá til sín uppsafnaðan hlut íbúðir. 

Oft er verið að safna fyrir kostaðarsömum framkvæmdum og ef seljendur myndu taka með sér inneignina þá gætu íbúðirnar í húsinu orðið illseljanlegar með tíð og tíma þar sem það væri aldrei til fyrir framkvæmdum og húsið myndi drabbast niður. Einn íbúi gæti þannig átt 4.000.000 þar sem hann er búinn að búa í húsinu í 10 ár en annar gæti átt 15.000 þar sem hann er nýbúinn að kaupa. Að eiga góðan framkvæmdasjóð er alltaf kostur við sölu eignar. 

Framkvæmdir eru alltaf á ábyrgð allra í húsinu þannig að ef einn gæti ekki greitt þá myndi það lenda á öðrum íbúðareigendum að greiða. 

Að vera með tóman framkvæmdasjóð getur einnig rýrt verðmæti eignar töluvert, sérstaklega ef það liggja fyrir kostnaðarsamar framkvæmdir sem hver og einn þarf að greiða. Mörg dæmi eru að um að hlutur hverrar íbúðar séu á bilinu 7.000.000 – 10.000.000 ef ekki hefur verið safnað í framkvæmdasjóð og litlu viðhaldi verið sinnt í gegnum tíðina. 

Inneign í framkvæmdasjóði fylgir alltaf íbúðinni en ekki eiganda hennar þannig að þegar eignin er seld þá fylgir inneignin með í sölunni, hins vegar ef það er skuld í framkvæmdasjóði þá þarf að gera hana upp samhliða sölu.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402



Aðrar færslur