fimmtudagur 29.02.2024

Hvernig losa ég pening fyrir kaupsamning?

Það er ansi algengt að kaupendur eru með peningana sína bundna á reikningum. Algengasta formið er 30 dagar. Mín reynsla er að það er engin leið til að losa þessa peninga innan frestsins. Yfirleitt tekur 2-4 vikur frá því að þú gerir tilboð þar til þú ert tilbúin í kaupsamning.

Ef þú gerir tilboð með fyrirvara um greiðslumat þá getur það tekið allt að 2 vikur og síðan getur það tekur 1 viku að útbúa lánaskjöl og undirbúa kaupsamninginn. Það er því gríðarlega mikilvægt að losa peninginn daginn sem þú færð tilboðið samþykkt.

Ef þú ert með allan þinn sparnað bundinn til 30 daga þá gætir þú stillt tilboðinu upp þannig að þú setjir lágmarksupphæð við kaupsamning, t.d. 2 milljónir sem þú þyrftir þá að leysa með yfirdrætti og svo myndi restin af greiðslunni koma 30 dögum eftir samþykkt tilboð sem eru yfirleitt ekki nema 1-2 vikum eftir kaupsamning.

Ef þú ert fyrsti kaupandi og átt séreignarsparnað sem þú getur nýtt við kaupin þá er mikilvægt að átta sig á því að þú getur ekki fengið hann greiddan út fyrr en búið er að þinglýsa kaupsamningi og þá tekur það yfirleitt nokkrar vikur.

Við setjum því yfirleitt séreignarsparnað við afsal. Nema þetta sé veruleg upphæð þá er hægt að segja greitt um leið og greiðslur berast úr séreignasparnaði mínum, þó eigi síðar en við afsal 2 mánuðum eftir afhendingu.

Ég myndi því ráðleggja öllum sem eru í kauphugleiðingum og eru með peninga á lokuðum reikningum að skoða hver binditíminn er og hverjar bindireglurnar eru. Sumir reikningar eru til 6-12 mánaða og það er engin leið að gera tilboð með greiðsluflæði eftir 12 mánuði nema það sé þeim mun lengra í afsal.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is - Sími: 863 0402



Aðrar færslur