fimmtudagur 21.12.2023

Hvenær byrjar kaupandi að greiða af láni?

Þar sem flestir seljendur eru að kaupa aðra eign er mikilvægt að fá megnið af greiðslunum vel fyrir afhendingu og meginreglan er því að nýtt lán komi við kaupsamning. Það fer þó algjörlega eftir því hversu langt er í afhendingu frá kaupsamning. Ef það eru 3 mánuðir eða minna í afhendingu frá kaupsamningi er eðlilegt að setja nýtt lán við kaupsamning þar sem það tekur oft 3-4 vikur að þinglýsa láni og kaupa það. Yfirleitt byrjar kaupandinn að borga af láninu eftir rúman mánuð eða eftir heilan mánuð og það sem eftir er af þessum mánuði. Þannig að ef lánið er keypt 5. febrúar ætti fyrsti gjalddagi kaupanda að vera 1. apríl. Mikilvægt er þó að hafa í huga að fyrsti gjalddaginn er alltaf hærri þar sem það eru uppsafnaðir vextir. Oft eru þetta margar eignir sem eru að bíða eftir greiðslum úr fyrsta láninu. Yfirleitt er fólk að afhenda sína eign viku til 10 dögum á eftir eigninni sem það er að kaupa og því er ekki hægt að koma með stóra greiðslu við afhendingu þar sem þá lendir seljandinn í því að geta ekki greitt í síðasta lagi samhliða sinni afhendingu, ef þetta eru 4-5 eignir í keðju þá getur munað 2 mánuðum frá því að fyrsta eignin í keðjunni er afhend þar til síðasta eignin er afhend og það myndi ekki ganga að sá aðili væri að fá megnið af greiðslunum 2 mánuðum eftir að eignin hans hefur verið afhend.

Það er því mikilvægt að taka tillit til þess þegar kauptilboð er gert. Stundum þarf kaupandinn að greiða af láninu einum mánuði áður en hann fær afhent og þá getur hann gert tilboðið í samræmi við það.

Mjög algengt orðalag í kauptilboði er: greitt með nýju láni samhliða kaupsamningi. Hins vegar er ekki verið að greiða nýja lánið út fyrr en 3-4 vikum eftir kaupsamning þar sem það á eftir að þinglýsa nýju láni og svo á bankinn eftir að kaupa það. Það er því mikilvægt að gera ekki ráð fyrir því að vera kominn með peninga út úr nýju láni samhliða kaupsamningi. Eina skiptið sem seljandi afhendir eign án þess að vera komin með peninga út úr láni er þegar eignin er afhent samhliða kaupsamningi og þá ber seljandinn ábyrgð á sínu láni þar til búið er að greiða það upp. Ef kaupsamningur er í lok mánaðar þá gæti seljandinn þurft að greiða einn gjalddaga af eign sem búið er að afhenda.

Ferlið við ný lán eru þannig að kaupandinn fær lánin samþykkt. Bankinn sendir lánaskjölin á fasteignasöluna sem boðar í kjölfarið í kaupsamning. Eftir kaupsamning fer fasteignasalinn með lánið í þinglýsingu og svo til kaups hjá bankanum. 

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402



Aðrar færslur