fimmtudagur 25.01.2024

Hvað þarf að passa við afhendingu eignar?

Þegar eign er afhend hittast kaupandi og seljandi í fasteigninni og seljandinn fer vel yfir fasteignina. Sýnir kaupanda allt sem skiptir máli. Þarna er mjög mikilvægt að kaupandinn skoði eignina gífurlega vel og komi með athugasemdir ef einhverjar eru.

Ótrúlega algengt er að fólk komi með athugasemdir við afsal sem er of seint að bæta úr s.s. að eignin hafi verið illa þrifin. Einnig er mikilvægt að ef fólk vill gera athugasemdir við eitthvað við afhendingu að það lagi það ekki fyrst og heyri svo í seljanda þar sem samkvæmt lögum ber kaupanda skylda til að gefa seljanda tækifæri til að bæta úr gallanum. Ef kaupandinn lagar gallann og vill svo senda reikning eftir á þá getur hann verið búinn að fyrirgera rétti sínum til bóta. 

Allar skyldur flytjast yfir á kaupanda við afhendingu en ekki fyrr. Það þýðir að hann byrjar að borga öll gjöld af fasteigninni, s.s. hita, rafmagn, fasteignagjöld, fráveitugjöld, hússjóð og tryggingar. Hins vegar getur komið upp sú staða að kaupandinn byrjar að borga fyrr. Það er yfirleitt vegna þess að búið var að semja um ákveðin afhendingartíma sem síðan er flýtt af ýmsum ástæðum. Þá eru opinberar stofnanir búnar að breyta um greiðanda og það er engin leið til að breyta útgefnum seðlum, eins og maðurinn sagði: “the computer says no” þá greiðir kaupandinn seðilinn og ofgreiðslan er síðan gerð upp við afsal. Það er hins vegar mun algengara að seljandinn sé búinn að ofgreiða 1-2 seðla og þá er sú ofgreiðsla alltaf gerð upp við afsal.

Ef eitthvað er óljóst með þína afhendingu þá er alltaf best að heyra í þínum fasteignasala og fá hann til að fara yfir málin með þér.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402



Aðrar færslur