fimmtudagur 25.05.2023

Hver greiðir framkvæmdir á fasteign við sölu?

Þegar eign í fjölbýlishúsi er seld er lykilatriði að það liggi fyrir yfirlýsing húsfélags. Þar á að koma fram hvort að búið sé að samþykkja einhverjar framkvæmdir og einnig hvort kostnaður liggi fyrir og hvort að einhverjar yfirstandandi framkvæmdir séu í gangi.

Meginreglan er að ef búið er að samþykkja framkvæmdir þá ber seljanda að greiða þær. Hinsvegar geta framkvæmdir tekið langan tíma og það er ekki eðlilegt að seljandi sé að greiða framkvæmdir eftir afhendingu og jafnvel löngu eftir að búið er að afhenda.

Stundum kemur í ljós að það þarf að fara í víðtækari framkvæmdir þegar þær hefjast, t.d. í staðinn fyrir að skipta bara út gleri kemur í ljós að einnig þarf að skipta út sumum gluggum og þá er talið að best sé að skipta út svalahurðum í leiðinni.

Þegar kaupandi gerir tilboð í fasteign þarf að koma fram hvað á að gera varðandi yfirstandandi og væntanlegar framkvæmdir. Ef það er eingöngu byrjað að safna fyrir þeim og þær hefjast ekki fyrr en eftir afhendingu eignar þá á kaupandi að greiða þær og eðlilegt að miða kaupverðið miðað við þessar upplýsingar. Framkvæmdir miða að því að auka verðmæti eignar og því er kaupandinn að hagnast á þessum framkvæmdum þegar hann selur seinna sína eign.

Ef framkvæmdum líkur fyrir afhendingu þá ber seljanda hins vegar að greiða þær.

Ef um kostnaðarsamar framkvæmdir er að ræða og greiðslur standa yfir í langan tíma eftir að þeim líkur, t.d. er verið að greiða 50.000 gjald á mánuði næstu 10 mánuði eftir afhendingu er einfaldast að kaupandi lækki kaupverðið sem þeim nemur og taki við að greiða gjaldið.

Hvað sem þið gerið, aldrei gera tilboð í eign nema það liggi skýrt fyrir hver mun bera kostnað af væntanlegum og yfirstandandi framkvæmdum á eignnin sem er verið að kaupa.

Seljanda ber alltaf að gera upp skuld á hússjóð við sölu en inneign í hússjóð fylgir eigninni.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402Aðrar færslur