fimmtudagur 23.02.2023

Viltu græða 3 milljónir?

Það er alltaf snúið að taka ákvörðun um í hvaða röð á að stunda fasteignaviðskipti. Á að kaupa fyrst eða selja fyrst?

Það fer algjörlega eftir markaðnum hvað er betra að gera. Þegar við erum á seljandamarkaði þá er yfirleitt best að kaupa fyrst og selja svo þar sem það eru fáar eignir til sölu og eignir seljast hratt og vel. 

Hins vegar þegar við erum á kaupendamarkaði eins og núna þar sem eignir eru lengur að seljast, núna er meðalsölutíminn um 2 mánuðir og oft eru kaupendur að bjóða undir ásettu þá er alltaf betra að selja fyrst og kaupa svo nema þú sért með gífurlega sértækar þarfir eins og þú viljir vera í hámarki 5 mínútna göngufæri frá grunnskólanum og þurfir 4 svefnherbergi, 2 baðherbergi og tvöfaldan bílskúr.

Hvort sem þú velur að kaupa fyrst eða selja fyrst er lykilatriði að undirbúa eignina mjög vel fyrir sölu og vanda til verka.

Það er stundum talað um að vera með belti og axlabönd þegar seljendur kaupa fyrst og selja svo. Það getur hins vegar kostað töluverðar fjárhæðir þegar upp er staðið.

Tökum dæmi. Þú ætlar að kaupa eign sem er sett á 75.000.000. Þú átt eftir að selja og seljendur eru ekki spenntir að taka við tilboði með fyrirvara um sölu. Þú ákveður því að bjóða 1.000.000 yfir ásettu til að gera tilboðið girnilegra. Það var annar kaupandi að bjóða líka í íbúðina. Hann var búinn að selja og hans tilboð var upp á 74.000.000. Þarna munar 2.000.000. Þú færð tilboðið í eignina samþykkt og þína í sölu og ásett verð er 59.000.000. Þú hefur 30 daga til að selja þína eign og á 25. degi kemur tilboð upp á 57.500.000. Þú ákveður að samþykkja tilboðið til að missa ekki af draumaeigninni. Þarna eru komnar 3.500.000 milljónir sem þú hefðir mögulega getað sparað þér ef þú hefðir selt fyrst og keypt svo. Á kaupendamarkaði er gott framboð af eignum og með því að fara fram á lengri afhendingartíma þá er hægt að snarminnka stressið við að finna rétta eign.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402



Aðrar færslur