fimmtudagur 17.02.2022

Það sem gott er að hafa í huga við val á lit fyrir rými

Það getur verið snúið að velja lit á ákveðin rými og stundum heilar íbúðir eða hús. Hins vegar er gott að vita að engin ein leið er rétt. Við erum öll í mismunandi hugleiðingum og með ólíkar ástæður, erum kannski að flytja inn í eign, í söluhugleiðingum og viljum að eignin lítur vel út fyrir skoðun, eða einfaldlega til að fríska upp á umhverfið okkar og nota liti sem láta okkur líða vel heima fyrir. Allt tekur þetta tíma og oftast mikla vinnu þannig að gott er að vanda sig áður en hafist er handa.

Hvað þarf að hafa í huga?

Mikilvægt er að skoða lýsinguna í rýminu. Hvort það sé bjart og mikið um náttúrulega lýsingu.  Hvernig er önnur lýsing í rýminu, húsgögn, gólfefni, innréttingar sem og hurðar og gluggakarmar? Þarf að gera einhverjar breytingar þar á? Hvað sérðu út um gluggana hjá þér? Er mikill gróður, litrík húsþök? Allt þetta getur haft mikil áhrif á litavalið. Þess vegna er alltaf gott að fá prufur og bera saman við það sem er nú þegar inn í rýminu. 

Photo by Beazy on Unsplash

Photo by Beazy on Unsplash

Er hvítur bara hvítur?

Á síðustu árum hafa grátónar verið vinsælir. Gráir veggir og hvít loft. Það er ástæða fyrir þessum vinsældum enda passar þessi samsetning við flestar gerðir af innréttingum og innbúi.

Málarahvítt hefur alltaf verið vinsæll hvítur litur og gengur við flest en sú er ekki alltaf raunin. Einn viðskiptavinur okkar nýlega, lagði mikla vinnu í að finna fallegan grátóna lit á nýju íbúðina sína, fékk prufur og bar litinn saman við það sem inn átti að fara í íbúðina. Að lokum þegar búið var að velja rétta gráa litinn þá var engin vinna lagður í valið á hvíta litnum og var málarahvítur valinn af gömlum vana. Hann hugsaði að hvítur væri jú bara hvítur. 

Málari var fenginn til verksins, en þegar viðskiptavinurinn mætti á svæðið þá fannst honum fallegi grái liturinn vera grænleitur og loftið bleikt. Þannig að mikilvægt er að horfa á heildarmyndina og sjá hvernig litirnir spila saman áður en hafist er handa við að mála allt rýmið. 

Photo by Stefen Tan on Unsplash

Photo by Stefen Tan on Unsplash

Hver er uppáhalds liturinn þinn?

Auðveldasta leiðin til að velja bestu litina fyrir þitt rými er að byrja á þeim litum sem þú elskar að hafa í kringum þig. Uppáhalds litirnir þínir geta verið frábær innblástur og inngangspunktur til að byrja vinna litapallettuna þina. Gaman getur líka verið að skoða hvað uppáhalds liturinn þinn þýðir og hvaða áhrif hann hefur á þig. Síðan er hægt að leika sér með mismunandi tóna af þeim lit, blanda saman. Ef þú ert ánægð/ur með litinn, en hann virðist ekki passa nægilega vel inn hjá þér, þá er gott að skoða að fara í aðeins dekkri eða ljósari útgáfu af sama litnum. 

Photo by Robert Bradshaw on Unsplash

Photo by Robert Bradshaw on Unsplash

Finndu innblástur

Í gegnum tíðina hafa tímarit og bæklingar verið uppistaðan í að finna innblástur en í dag er hægt að finna hann á netinu. Samfélagsmiðlar eins og Pinterest og Instagram bjóða upp á lita innblástur sem er uppfærður í rauntíma. Pinterest er frábær leið til að búa til lita pallettu fyrir uppáhalds hugmyndirnar þínar. Þar getur þú líka geymt allar hugmyndirnar á einum stað.

Leyndarmál innanhússhönnuða er að velja liti úr listaverkum heimilisins. Flestir listamenn eru meistarar í litum og ljósi og búa til litasamsetningu fyrir verkin sín. Þú getur notið góðs af innsýn þeirra með því að velja liti úr uppáhalds listaverkinu þínu. Talandi um listaverk þá er líka mikilvægt við litaval á veggi að vera meðvitaður um verk og myndir sem þú ætlar að hengja á veggina eftir málun og hvernig það mun fara saman.

Photo by Waiyong Tseng on Unsplash

Photo by Waiyong Tseng on Unsplash

Þú getur verið skapandi þótt þú veljir hlutlausa liti

Þó að þú veljir hlutlausa liti þýðir ekki að rýmið þurfi að vera óspennandi. Þú getur unnið með hlutlaust litaval en verið skapandi með hvernig litirnir eru notaðir. T.d röndóttur veggur í hlutlausum tónum gæti gefið rými sterkari stíl.  Bæta við fallegum gólflistum og skrautlistum eða jafnvel breyta áferð eða byggja upp mynstur á veggjunum áður er málað.

Að lokum er mikilvægt að hafa í huga að trend koma og fara og að þetta snýst um að þér og þínu fólki líði vel inn í rýminu.

‘Everything is permissible as long as it is fantastic.’ - Carlo Mollino, architect


Aðrar færslur