fimmtudagur 09.05.2024

Hvers vegna tóku seljendur 5 M lægra tilboði?

Ég var í pottinum um daginn þegar ég heyrði aðila ræða sín á milli að seljandinn hefði tekið 5 M lægra verði en þeirra vinur gerði í sömu eign. Ég spurði hvort að tilboðin hefðu verið sambærileg. Í raun var eini munurinn að lægra tilboðið var staðgreiðslutilboð en hitt var með fyrirvara um sölu og greiðslumat.

Þetta var sérbýli í kringum 140 M. Auðvitað er 5 M mikill peningur en tilboð með fyrirvara um sölu og greiðslumat er bara loft. Ef kaupandinn veit ekki hvort að hann geti yfirleitt staðist greiðslumat og hann veit ekki hvað hann fær fyrir sína eign hvað þá hvort að hún muni seljast fyrir frestinn þá er seljandinn yfirleitt betur settur með öruggara tilboðið.

Þá er hægt að bóka í kaupsamning eftir nokkra daga og ef hann er í keðju þá er hægt að klára kaupin á keðjunni. Annars tekur hann áhættu á því að vera fastur í 30 daga og svo næst jafnvel ekki að selja eina eign í keðjunni og þá þurfa allir aðilar keðjunnar að byrja upp á nýtt eða semja um fresti.

Þegar kemur að fasteignaviðskiptum þá er það gífurlega stressandi að vera fastur í eignakeðju jafnvel svo mánuðum skiptir og enginn veit hvort að þetta muni örugglega klárast. Að geta selt á verði sem þú ert sáttur við og klárað kaupsamninginn í næstu viku er kostur sem langflestir munu velja. Það er því gífurlega mikilvægt að ef þú átt eftir að selja að vera að lágmarki kominn með staðfest greiðslumat og verðmat frá löggiltum fasteignasala. Það er ennþá betra að vera búinn að setja eignina þína í forsölumeðferð þannig að fasteignasalinn þinn þurfi bara að ýta á enter til að setja eignina á netið og langbest er að vera búinn að selja þannig að þú vitir hvernig greiðsluflæðið mun líta út og þinn seljandi þarf ekki að bíða milli vonar og ótta hvort að hann sé örugglega búinn að selja.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402



Aðrar færslur