fimmtudagur 02.05.2024

Hvernig losna ég við að borga umsýslugjaldið?

Þetta er í raun ekkert svo flókið og ekki nema 3 skref sem þarf að græja. Í fyrsta lagi þarftu að heyra í Eftirlitsnefnd félags fasteignasala og tryggingarfélagi viðkomandi fasteignasala að þú megir undanskilja þig starfsábyrgðartryggingu fasteignasala og að hann sjái ekki um þína hagsmunagæslu.

Í öðru lagi þarftu að sækja um aðgang að fasteignagátt fasteignasala hjá viðkomandi banka þar sem öll lán eru send í gegnum gáttina í dag. Þú þarft að heyra í seljanda hvað hann ætlar að gera við sitt lán þar sem þú berð ábyrgð á því að koma þínu láni áfallalaust yfir á eignina sem þú ert að kaupa. Ef seljandinn ætlar að veðflytja þau þá þarftu að heyra í fasteignasalanum sem hann er að kaupa af og passa að það sé sett í ferli.

Ef hann ætlar að láta greiða þau upp þá þarftu að útbúa skilyrt veðleyfi sem er þinglýsingartækt og fá bankann til að samþykkja það. Ef þetta er keðja þá þarftu að heyra í öllum fasteignasölunum í keðjunni til að passa að lánið fari rétta boðleið. Mögulega á að ráðstafa þessu láni til að greiða upp lán á 3ju fasteigninni.

Að lokum þarftu að sækja um aðgang að rafrænum þinglýsingum þar sem núna styttist í að öllum skjölum verði þinglýst rafrænt. Til að fyrirbyggja allan misskilning þá rukkum við hins vegar ekki krónu fyrir að fara með skjölin í þinglýsingu og höfum aldrei gert.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402



Aðrar færslur