fimmtudagur 08.12.2022

Hvernig er eðlilegur fasteignamarkaður?

Síðustu ár höfum við verið á gífurlega hröðum markaði, svo hröðum að kaupendur hafa varla náð að skoða eignina þegar þeir þurfa að senda inn tilboð og yfirleitt hefur ekki dugað að fara í ásett heldur voru jafnvel komin mörg tilboð yfir ásettu.

Við erum fljót að gleyma og mörgum finnst þetta vera eðlilegt í dag, það er hins vegar langt í frá að vera rétt. Spurning er því hvernig lítur eðlilegur fasteignmarkaður út?

Það eru nokkur atriði sem einkenna eðlilegan markað.

  1. Fasteignir eru aðeins lengur að seljast: Sumar eru nokkra daga, aðrar nokkrar vikur og síðan eru eignir sem eru nokkra mánuði að seljast.
  2. Kaupendur skoða eignir betur:  Þeir koma jafnvel tvisvar og gera fyrirvara um ástandsskoðun ef þeir hafa áhyggjur af ástandi eignarinnar.
  3. Tilboðin fara að breytast: Kaupendur geta núna gert tilboð á sínum forsendum. Þannig að í staðinn fyrir að senda inn tilboð yfir ásettu verði þá bjóða þeir jafnvel undir ásett verð og fá gagntilboð frá seljanda. Í sumum tilfellum þarf fleiri en eitt og tvö gagntilboð til að kaupandi og seljandi nái saman. Tíminn þar sem seljandinn segir þetta er verðið sem ég vil fá eða hærra er liðinn og tími samningaviðræðna hefur tekið við.
  4. Ásett verð skiptir gífurlega miklu máli þar sem verðvitund kaupanda er mikil og þeir nenna hreinlega ekki að skoða eignir sem eru alltof hátt verðlagðar.

Þetta eru allt einkenni um eðlilegan markað. Það eru fleiri eignir að koma inn á markaðinn sem er mjög jákvætt: Þegar framboð eigna eykst þá koma kaupendur sem fundu ekki réttu eignina og þeirra eignir koma líka á sölu. Markaður með stöðugu framboði af eignum er markaður í jafnvægi.​​​​​​​


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402



Aðrar færslur