Voru fleiri en ég sem krulluðust inn í sér þegar Seðlabankinn kom með “frábærarlausnir” fyrir fyrstu kaupendur. Fasteignamarkaðurinn fór í smá uppnám þegar stóri vaxtadómurinn féll og bankarnir hættu að lána tímabundið. Seðlabankinn ákvað að klippa á hnútinn og slaka á kröfum sem eru gerðar til fyrstu kaupenda með því að hækka lánshlutfallið úr 85% í 90% því það vita allir að ef þú stenst ekki greiðslumat fyrir 85% láni þá flýgur þú í gegn með 90% lán.
Þeir fyrstu kaupendur sem ég hef verið að vinna með hafa almennt ekki átt í vandræðum með eigið fé heldur 40% regluna sem þýðir að fyrstu kaupendur mega ekki greiða meira af lánum en sem nemur 40% af ráðstöfunartekjum þeirra og þeir hafa því verið í vandræðum með að standast greiðslumat fyrir láninu sem þau þurfa að taka. Einnig er verið að stytta verðtryggð lán og gera þau óaðgengilegri. Hvaða skoðun sem fólk hefur á þeim þá eru þau oft eina leiðin til að komast inn á fasteignamarkaðinn í upphafi og síðan þegar betur stendur á má endurfjármagna þau.
Ég hef sagt það áður og mun halda áfram að segja það. Fyrstu kaupendur eru lífæð fasteignamarkaðsins. Ef það er eðlilegt flæði af fyrstu kaupendum þá er fasteignamarkaðurinn í jafnvægi. Það er því gífurlega mikilvægt að tryggja að þeir geti keypt sína fyrstu eign og það þarf að gera betur við þá en aðra hópa af þeirri einföldu ástæðu að þetta er fólkið sem er með ótrúlega marga bolta á lofti. Þeir eru oft að klára námið, eignast sitt fyrsta barn og koma sér út í lífið. Það er því mjög mikilvægt að þau geti keypt sér fasteign og ráðið við afborganir. Ég held að það sé kominn tími til að skoða aðrar lausnir en 90% lán og horfa á hvaða greiðslubyrði fyrstu kaupendur ráða við. Við ættum að verðlauna ungt fólk sem er að koma sér fyrir í lífinu ekki refsa þeim með himinháum íbúðavöxtum.
Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.
asdis@husaskjol.is – 863 0402