fimmtudagur 06.02.2025

Er allt botnfrosið út af vöxtunum?

Ég fékk þessa spurningu um daginn. Hvort að markaðurinn sé ekki botnfrosinn út af vöxtunum. Vextir hafa verið háir í ansi langan tíma og það hefur verið fín sala allan tímann. Það kom ansi mikill kippur þegar seðlabankinn lækkaði vextina í október og svo aftur í nóvember. Það eru teikn á lofti að markaðurinn sé með væntingar að vorið verði frábært, amk hefur aldrei verið jafnmikið að gera hjá mér í verðmötum í byrjun árs og 2025.

Mikið af seljendum eru byrjaðir að hugsa sér til hreyfings. Þegar vextir eru háir þá eru margir sem vilja halda að sér höndum og bíða þar til vextir lækka. Það sem gerist hins vegar alltaf og án undantekningar er að þegar vextir lækka þá kemur flóðbylgja af kaupendum inn á markaðinn, verðin hækka, yfirboðum fjölgar og markaðurinn fer í ójafnvægi þar sem það er ekki eðlilegt ástand að þú þurfir að taka ákvörðun um fasteignakaup á 2 tímum.

Mín ráðlegging er að kaupa þegar markaðurinn er rólegri. Það eru meiri líkur á því að þú getir boðið undir ásett verð og jafnvel þó að þú sért að taka lán á hærri vöxtum þá þarftu kannski að taka lægra lán þar sem verðið er lægra. Þegar vextir fara síðan að lækka þá getur þú endurfjármagnað íbúðalánið og lækkað þannig greiðslubyrðina eða stytt lánið.

Nýjasta vaxtalækkunin núna í febrúar gefur fyrirheit um að frekari lækkanir séu framundan þannig að ég myndi ráðleggja öllum sem eru í fasteignahugleiðingum að fara að skoða sín mál að alvöru frekar en að bíða eftir næstu vaxtalækkunum.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402



Aðrar færslur