fimmtudagur 19.10.2023

Er hægt að borga íbúð með veðflutningi?

Það eru nokkrar leiðir til að greiða fyrir íbúð. Algengast er að greiða með nýju láni og peningum. Nokkur dæmi eru um að það séu skipti á íbúðum, s.k. makaskipti og þá greiðir sá sem er að kaupa stærri eignina með sinni íbúð og peningum og/eða nýju láni.

Þegar við erum með langar eignakeðjur, jafnvel 5-8 eignir þá er það oft lánið sem er að koma á fyrstu eignina sem fer áfram í gegnum alla keðjuna og endar sem greiðsla í síðustu eigninni.

Það er ansi algengur misskilningur að það sé hægt að greiða með veðflutningi. Þegar veðflutningur á sér stað þá er verið að flytja lán af eign kaupanda yfir á eignina sem hann er að kaupa. Það er hins vegar ekki hægt að borga með veðflutningi þar sem hvert lán er bara ígildi peninga einu sinni, það er þegar lánið er tekið upphaflega. 

Til að hægt sé að flytja veð á aðra eign þá þarf að koma til nýr peningur samhliða veðflutningi. Nýju láni kaupanda er þá ráðstafað til að flytja lán seljanda á aðra eign. Ef seljandinn er ekki búinn að festa sér eign en vill samt halda láninu, t.d. vegna mjög hagstæðra vaxtakjara þá er hægt að flytja lánið á handveðsettan reikning í hans viðskiptabanka. Þá tekur bankinn veð í peningum í staðinn fyrir fasteign og yfirleitt þarf að borga 20% aukalega þannig að ef lánið er 50.000.000 þá vill bankinn fá 60.000.000 inn á handveðsetta reikninginn til að aflétta láninu af eign seljanda.

Það borgar sig samt alltaf að skoða hvort að það borgi sig að setja lán á handveðsettan reikning. Ef seljandi er ekki að fara að kaupa strax þá er kannski óþarfi að borga af láninu í marga mánuði, sérstaklega ef fastir vextir eru að renna út.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402



Aðrar færslur