fimmtudagur 18.04.2024

Er þín eign alltaf betri en mín?

Ég hef ekki tölu á því hversu oft kaupendur mæta í opið hús og vita upp á hár hvers virði þeirra eign er. Ég spyr á móti, ertu búin að fá verðmat frá fasteignasala. Nei en hann Jón á móti seldi sína um daginn og hann fékk 87 M fyrir eignina sína. Þær eru jafnstórar en mín eign er miklu betri en Jóns þannig að ég myndi aldrei selja hana undir 90 M.

Eftir svona yfirlýsingar legst ég alltaf í smá rannsóknarvinnu. Nær undantekningarlaust er þetta nú ekki alveg rétt. Í fyrsta lagi var eignin hans Jóns á sölu í 3 mánuði og hún fór ekki á 87 heldur 84 M, það var hins vegar sett á hana 87 M. Ef eignin er búin að vera á sölu í 3 mánuði má næstum því gefa sér það að hún fer ekki á ásettu verði. Eignin hans Jóns er líka 20 fermetrum stærri og með sérinngangi og sérafnotarétti sem snýr í suður á meðan þín er á 3ju hæð með sameiginlegan inngang og norðursvalir. Jón var búin að endurnýja sína íbúð ansi vel miðað við myndirnar sem voru inn á fastinn þar sem ég gat séð bæði hvernig eignin leit út þegar Jón keypti hana sem og þegar hann setti á sölu. Þannig að þegar upp er staðið væri kannski raunhæft verð fyrir þína eign í kringum 80 M.

Í dag er svo auðvelt að sannreyna allar staðreyndir. Þú getur farið inn á verdsaga.is sem er leitarvél í öllum þinglýstum kaupsamningum og séð nákvæmlega hvað eignin hans Jóns seldist á. Þá sérðu líka hversu stór hún er og þú veist líklega hversu stór eignin þín er. Þess vegna er lykilatriði áður en þú ferð af stað að kaupa næstu fasteign að vera komin með staðfest verðmat frá fasteignasala einfaldlega vegna þess að það er algjör forsendurbrestur í kaupum að reikna með að fá 90 M fyrir eignina þína þegar hún er ekki nema 80 M króna virði.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402



Aðrar færslur