fimmtudagur 05.10.2023

Ertu sætasta stelpan á ballinu?

Fasteignamarkaðurinn sveiflast alltaf á milli þess að vera kaupendamarkaður og seljendamarkaður. Í dag erum við á kaupendamarkaði en alvöru kaupendamarkaður þýðir að kaupandinn getur gert frábær kaup ef hann er tilbúinn að kaupa án fyrirvara. Þegar kaupandinn á eftir að selja og jafnvel líka fara í greiðslumat þá er hann ekki besti mögulegi kaupandinn og seljendur eru ekki spenntir fyrir því að selja með fyrirvara um sölu kaupanda, sérstaklega eins og staðan er í dag þegar keðjurnar geta verið 5-8 eignir og það getur tekið mánuði að klára allar sölurnar. 

Seljendur eru hins vegar gífurlega spenntir fyrir fyrirvaralausum tilboðum og kaupendur sem eru búnir að selja og/eða þurfa ekki að selja, eins og t.d. fyrstu kaupendur verða allt í einu sætasta stelpan á ballinu. Það vilja allir dansa við hana. Þú gætir m.a.s. fengið hringingar frá fasteignasala um eignir sem eru að koma á sölu og fengið að skoða á undan öðrum. Það er ótrúlega stutt síðan það var slegist um eignir og margir eru ekki alveg búnir að uppfæra yfir í kaupendamarkað en ef þú átt eftir að selja eign, sérstaklega stóra dýra eign þá mæli ég alltaf með því að selja fyrst og kaupa svo. Það er hægt að selja með skilyrði um langa afhendingu þar sem úrvalið af eignum til sölu er alltaf að aukast og litlar líkur á því að þú finnir ekki rétta eign á 4-5 mánuðum.

Þú getur sparað þér margar milljónir með því að selja fyrst og kaupa svo. Ef þú vilt kaupa fyrst og selja svo þá verður þú að gera gott tilboð, svo gott að seljandinn geti ekki hugsað sér að hafna því. Ef fleiri en einn eru að gera tilboð og þú átt eftir að selja en ekki hinn þá verður þú að bjóða umtalsvert betur en hinir. Þegar það kemur svo að því að selja þína þá er viðbúið að það geti tekið nokkrar vikur. Ef tímafresturinn er alveg að renna út þá eru allar líkur á því að þú takir lægra tilboði en þú hefðir þurft að gera ef þú hefðir nægan tíma.

Ef þú átt eftir að kaupa og selja þá mælum við alltaf með að selja fyrst og kaupa svo á núverandi markaði.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402



Aðrar færslur