laugardagur 04.10.2025

Fyrstu kaupendur eru lífæð fasteignamarkaðsins

Þetta er ekkert flókið, án fyrstu kaupenda er fasteignamarkaðurinn alltaf í ójafnvægi. Fræg setning sem er tileinkuð Albert Einstein er aðskilgreiningin á geðveiki sé að reyna að gera það sama aftur og aftur og búast við mismunandi niðurstöðum.

Ég hef verið fasteignasali í tæp 23 ár og við förum alltaf í sömu hringrásina. Vextir hækka og fyrstu kaupendur halda að sér höndum þar sem þeir ná hreinlega ekki greiðslumati. Markaðurinn höktir. Seðlabankinn lækkar vexti og 2-3 árgangar af fyrstu kaupendum koma inn á markaðinn. Allar íbúðir seljast upp og verðin rjúka lóðbeint upp. Seðlabankinn ákveður að hækka stýrivexti til að minnka þrýsting á fasteignamarkaði og fyrstu kaupendur detta út tímabundið, bara til að endurtaka leikinn eftir 2-3 ár.

Hvað er þá til ráða?

Mín tillaga er að setja vaxtaþak á lán til fyrstu kaupenda þannig að þeir standist greiðslumat óháð stýrivaxta hækkunum. Þetta lán mætti svo skilyrða t.d. að það mætti hvorki yfirtaka það né flytja það. Flestir fyrstu kaupendur stoppa stutt í sinni fyrstu eign. En hvað með þá sem flytja aldrei, jú þá hafa þeir bara hagstætt lán út ævina. Verri hlutir hafa gerst í heiminum. Mörgum finnst þetta ekki góð hugmynd. Það þurfi að verja fjármálastofnanir og hvað með lífeyrissjóðina?

Þeir mega ekki tapa peningum og þurfa að verja sína hagsmuni.

Ja sko ef Birta lífeyrissjóður gat tapað einum og hálfum milljarði á falli Play þá ráða lífeyrissjóðirnir pottþétt við vaxtaþak hjá fyrstu kaupendum. Þetta er fólkið sem er líka að taka á sig tekjutap við að koma nýjum skattgreiðendum í heiminnn þannig þetta er winwin.

Við höldum fasteignamarkaðnum heilbrigðari, komum í veg fyrir óeðlilegar verðhækkanir á stuttum tíma og mögulega fáum við fleiri framtíðarskattgreiðendur í kaupbæti. Ég væri til í að fá umræðu um þetta þannig að ef þér finnst þetta góð hugmynd endilega deila henni. Ef ekki þá væri ég til í að fá nýjar og ferskar hugmyndir því núverandi ástand er úrelt og þreytt og virkar ekki.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggildur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is – 863 0402



Aðrar færslur