Stutta svarið er já, það geta allir gert tilboð í sömu eign á sama tíma en seljandi getur hins vegar bara valið að gera einum gagntilboð eða taka einu tilboði. Þegar við erum á seljandamarkaði þá er mjög algengt að það berist mörg tilboð í sömu eignina og jafnvel yfir ásettu verði. Seljandinn þarf þá að velja eitt tilboð til að annað hvort svara með gagntilboði eða samþykkja.
Þegar þannig stendur á þá er mikilvægt að hafa í huga að seljanda ber engin skilda til að svara þínu tilboði. Það er mjög algengt að kaupendur vilja gera lægra tilboð og fá gagntilboð en ef seljandinn er kominn með 5 tilboð sem öll eru hærra en þitt hvers vegna ætti seljandinn að gera gagntilboð á þitt tilboð?
Það er líka gott að hafa í huga að þó að það sé komið tilboð sem gildir til hádegis á morgun þá er það engin trygging að seljandinn sé ekki búin að svara því fyrir þann tíma. Oft er seljandinn upptekinn og vill klára þetta kl. 09:00. Það er ansi algengt að kaupendur sem eru áhugasamir ákveða að leggja inn tilboð rétt áður en hitt tilboðið rennur út og verða spældir þegar þeir frétta að það sé þegar búið að taka hinu tilboðinu.
Seljanda ber engin skilda að bíða með að svara tilboði þannig að mín ráðlegging til að allra sem eru í kauphugleiðingum, ef þú ert spenntur fyrir eign og veist að það er komið tilboð að heyra í fasteignasalanum fyrr en síðar og leggja inn tilboð frekar en að bíða fram á síðustu stundu, því stundum er fasteignasalinn líka bókaður annað og getur hreinlega ekki tekið við þínu tilboði.
Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.
asdis@husaskjol.is – 863 0402