Ég hef rætt þetta áður. Það er ótrúlega algengt að kaupendur vilja alls ekki svara eftirfylgni eftir sýningu og það getur farið ansi mikill tími í að eltast við þessi svör. Seljendur vilja auðvitað vita hvernig kaupanda leist á eignina.
Því stærri sem eignin er því lengur eru seljendur að undirbúa sýningu. Það getur tekið seljanda marga klukkutíma að undirbúa eign fyrir sýningu og stundum hætta þeir snemma í vinnu til að fara heim og undirbúa þar sem krakkarnir voru komnir heim úr skólanum og þeir vita ekki alveg hvort að eignin sé sýningarhæf. Kaupendur koma og skoða og seljendur bíða svo spenntir eftir því að vita hvernig þeim leist á.
Mitt ferli er alltaf að ég hringi daginn eftir, ef kaupendur svara ekki símanum þá sendi ég póst og set svo reminder á 2ja daga fresti ef þeir svara ekki. Þetta er ekkert flókið. Það er engin krafa að fólk elski allar eignir sem það skoðar en það er lágmarks kurteisi að sýna seljandanum þá virðingu að láta vita hvernig ykkur leist á.
Ef þið viljið alls ekki fá eftirfylgni frá fasteignasalanum þá er hérna smá tips, þið getið sent sms, email eða hvað eina og sagt. Takk fyrir sýninguna, því miður hentaði eignin ekki. Þið fáið síðan bónusstig ef þið segið hvers vegna hún hentaði ekki því þá geta seljendur nýtt sér þessar upplýsingar til að endurbæta eignina, stundum þarf að lækka verðið og stundum þarf bara að bíða þolinmóður eftir réttum kaupanda.
Oft fá fasteignasalar sambærilegar eignir á skrá og ef kaupandinn svarar eftirfylgninni og lætur fasteignasalann vita að hverju hann er að leita þá eru þeir yfirleitt fyrsta fólkið sem fá að frétta af næstu eign. Sérstaklega ef þeir eru tilbúnir með allt sitt. Búnir að fara í greiðslumat og búnir að selja eða þetta eru fyrstu kaup þá eru góðar líkur á því að þeir komist í forsýningu og fái að skoða á undan opnu húsi. En hættum að ghosta, þetta eru aldrei falleg samskipti.
Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.
asdis@husaskjol.is - Sími: 863 0402