fimmtudagur 17.04.2025

Hvað getur þú keypt dýra eign?

Þarna skiptir höfuðmáli hvort um er að ræða fyrsta kaupanda eða aðila sem á eftir að selja. Ef þú ert fyrsti kaupandi þá er lykilatriði að fara í greiðslumat og vita nákvæmlega hvað þú mátt kaupa dýra eign. Með því að vera með greiðslumatið klárt þá verður þú betri kaupandi og seljandinn er líklegri til að taka þínu tilboði þar sem það er enginn óvissuþáttur.

Ef þú veist ekki hvað þú getur keypt dýra eign þá gætir þú endað á því að fara í dýrar skammtímareddingar. T.d. ef þú ert búinn að fá samþykkt tilboð og þarft lán upp á 50.000.000 en færð bara 48.000.000 þá gæti þetta endað í skammtímaláni s.s. yfirdrætti sem er mjög dýrt ef þú vilt klára kaupin.

Ef þú átt eftir að selja þá er mikilvægt að fá fasteignasala á staðinn til að gefa þér verðmat sem og að fara í greiðslumat ef þú ætlar að taka nýtt lán þannig að þú vitir hvað þú mátt kaupa dýra eign. Til að reikna eigið fé í eigninni þá einfaldlega tekur þú verðmatið frá fasteignasalanum og dregur frá áhvílandi lán.

Þú þarft einnig að gera ráð fyrir kaup-og sölukostnaði sem og kostnaðinum við að flytja, mála og standsetja næstu eign. Það getur verið lúmskur kostnaður í nýjum ljósum, gardínum og þess háttar.

Ég ráðlegg fólki alltaf að hafa borð fyrir báru þannig að ef eigið fé í þinni eign er 50.000.000 að gera frekar ráð fyrir 47.000.000 þannig að þú sért ekki að spenna bogann of hátt. Það er alltaf hægt að greiða inn á lánið seinna.

Hins vegar ef þú vilt vera alveg viss þá er alltaf best að selja fyrst og kaupa svo því þá veistu nákvæmlega hvað þú átt mikið eigið fé í þinni eign og hvað þú getur keypt dýra eign.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is - Sími: 863 0402



Aðrar færslur