fimmtudagur 14.08.2025

Hvað er forkaupsréttur?

Forkaupsréttur þýðir að eigendur í sama húsi eiga forkaupsrétt á eign sem kemur til sölu í húsinu. Þetta á yfirleitt við um tví- og þríbýli og er sérstaklega algengt í eldri hverfum, s.s. Hlíðum og Vesturbæ. Það er hins vegar ekki sjálfgefið að þú eigir forkaupsrétt bara af því að þú býrð í tvíbýli.

Forkaupsréttur er alltaf þinglýstur og hann getur í raun verið íþyngjandi þar sem sá sem á forkaupsréttinn þarf ekki að taka afstöðu til hans fyrr en búið er að gera bindandi kauptilboð í eign. Þegar seljandi er kominn með bindandi kauptilboð þá ber honum skylda til að kynna tilboðið fyrir þeim sem eiga forkaupsréttinn sem hafa þá 15 daga til að ganga inn í tilboðið með sömu kjörum og tilboðið kveður á um.

Forkaupshafi getur t.d. ekki boðið lægra í eignina eða breytt skilmálum, s.s. afhendingu eða seinkað greiðslum. Seljandi getur ekki valið að gleyma að láta forkaupshafa vita af tilboðinu og selt íbúðina þar sem forkaupsréttur er alltaf þinglýstur og því myndi sýslumaður gera athugasemd við þinglýsinguna þar sem forkaupsréttarhafar þurfa alltaf að afsala sér forkaupsrétti við þessa sölu formlega.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggildur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is – 863 0402



Aðrar færslur