Þegar fólk slítur sambúð og á eign saman þá er stundum flókið að finna bestu leiðina til að skipta upp eigninni. Stundum vill annar makinn kaupa hinn út og þá þarf að finna sanngjarna leið fyrir báða. Fyrst þarf að byrja á því að meta eignina miðað við markaðinn í dag. Það er alltaf ákveðið hagræði í því að láta makann kaupa sig út og það er því sanngjarnt að taka mið af því, t.d. er hægt að greiða skjalagerðargjald í staðinn fyrir sölulaun sem er miklu lægra og eðlilegt að taka það inn í uppgjörið.
Það þarf að skoða á hvernig markaði við erum. Erum við á kaupenda- eða seljandamarkaði. Ef þetta er kaupendamarkaður þá má búast við því að eignin myndi fara á undirverði en ef þetta er seljandamarkaður þá gæti eignin farið á ásettu eða jafnvel aðeins yfir.
Það er auðvelt í dag að framreikna hvers virði eignin þín er miðað við hvað þið keyptuð hana á og því styttra sem það er síðan þið keyptuð hana því raunhæfari eru þessir framreikningar. Það er t.d. hægt að framreikna kaupverðið á www.verdsaga.is.
Ef aðilar ná ekki saman um kaupverð sín á milli þá myndi ég mæla með því að kaupa verðmat hjá 2 fasteignasölum og taka meðaltalið af þeim.
Það er hins vegar engin skilda að selja makanum eignina á raunvirði. Í skilnaði gæti eignin verið hluti af lokauppgjöri þar sem annar makinn fær eignina og hinn eitthvað annað eða annar makinn gæti valið að láta hinn fá eignina á undirverði þar sem sá maki mun búa áfram í eigninni ásamt börnunum.
Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.
asdis@husaskjol.is – 863 0402