fimmtudagur 28.03.2024

Hvenær borga ég íbúðina?

Ég fæ mikið af spurningum um hvenær á að greiða íbúðina sem þú varst að kaupa. Stutta svarið er: Þú greiðir aldrei krónu fyrr en við kaupsamning. Ferlið er þannig að um leið og komið er á samþykkt kauptilboð þá þarf að fara að leysa úr fyrirvörum. Þeir geta verið allskonar en algengustu eru fyrirvari um fjármögnun og fyrirvari um sölu. Núna er einnig mjög algengt að gera fyrirvara um uppkaup ríkisins á eignum í Grindavík.

Þegar kaupandi hefur uppfyllt alla fyrirvara þá er boðað í kaupsamning. Við kaupsamning þarf að greiða kaupsamnings greiðsluna sem var tilgreind á kauptilboði sem og allan kostnað við kaupin, s.s. stimpilgjald kaupsamnings, þinglýsingargjöld og umsýslugjald fasteignasölunnar.

Ef það var fyrirvari um sölu á eign kaupanda og tilgreint að greiðslur berast eins og þær berast úr sölu kaupanda þá þarf að greiða áfram þær greiðslur sem hann hefur fengið út úr sinni eign. Stundum erum þetta keðjur með jafnvel 5-7 eignum og þá þarf að stemma af greiðslur úr hverri einustu eign, draga frá kostnað við kaup og sölu og greiða síðan áfram í keðjuna þær greiðslur sem eiga að koma áfram.

Þannig að til að hnykkja á þessu, þú greiðir aldrei neinar greiðslur áfram fyrr en komið er í kaupsamning en þá er líka mjög mikilvægt að þeir peningar sem eiga að greiðast áfram séu örugglega lausir til útgreiðslu.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggiltur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is- Sími: 863 0402



Aðrar færslur