fimmtudagur 30.10.2025

Hvenær má kynna kauptilboð?

Það eru í raun engar formreglur hvenær má kynna kauptilboð. Ég hef það fyrir reglu að kynna aldrei fyrsta tilboð fyrr en allir kaupendur hafa skrifað undir það og það sé því orðið löglegt. Oft vilja kaupendur láta kanna hug seljanda áður en þeir leggja inn formlegt tilboð.

Ég gerði þessi byrjendamistök þegar ég var ný í starfi og svo skiluðu þessu tilboð sér yfirleitt ekki inn formlega eða kaupandi vildi leggja inn lægra tilboð en hann var búinn að tala um. Þarna var því búið að byggja upp væntingar seljanda og rugga óþarfa bátum.

Með því að leggja inn formlegt tilboð þá þarf seljandinn að taka afstöðu til þess. Það er miklu auðveldara að hafna munnlegu tilboði þar sem þá er ekki verið að skoða greiðsluflæðið og skilmála s.s. afhendingardag.

Hins vegar þegar fyrsta tilboðið er komið og seljandinn vill gera smá breytingar á því þá er yfirleitt vænlegast að hringja í kaupandann og bera undir hann þessar breytingar og freista þess að ná þeim saman og senda svo báðum aðilum tilboðið til undirritunar á sama tíma.

Það þarf alls ekki að taka niður öll tilboð og það þarf ekki að kynna öll tilboð. Ef seljandi hefur hafnað tilboði upp á 65 M og tilkynnt fasteignasala að hann skoði ekki tilboð undir 67 M þá ber fasteignasala engin skylda til þess að taka niður eða kynna tilboð undir þeirri tölu. Það er algengur misskilningur að kaupendur hafi rétt til að senda inn hvaða tilboð sem þeim dettur í hug. Auðvitað má þreifa á seljanda með formlegu tilboði en ef seljandinn hefur hafnað hærri tilboðum þá þarf ekki að taka niður lægri tilboð.

Meginreglan er að tilboð gildi í 24 tíma nema ef það sé frídagur daginn eftir þá gilda þau oft fram á næsta virka dag.

Ertu með spurningar varðandi fasteignamarkaðinn sendu mér línu á asdis@husaskjol.is eða skilaboð á samfélagsmiðlunum.


Ásdís Ósk Valsdóttir
Löggildur fasteignasali og eigandi Húsaskjóls

asdis@husaskjol.is – 863 0402



Aðrar færslur