sunnudagur 15.03.2020

Fasteignamarkaðurinn á óvissutímum

Hvað er eiginlega í gangi á fasteignamarkaðnum núna? Það eru verkföll, jarðskjálftar, ferðabann til Bandaríkjanna og kórónavírus, sem er líklega stærsta einstaka áfallið sem hefur dunið yfir heimsbyggðina síðustu áratugi. Er fólk virkilega að kaupa og selja núna?

Það kom mér þægilega á óvart að fasteignamarkaðurinn heldur sínu striki. Ég átti von á meiri lægð og fólk myndi hætta að skoða fasteignir en svo áttaði ég mig á því að það er ekki hægt að stoppa á núll einni. Það eru ansi margir sem eru búnir að selja sem eiga eftir að kaupa. Þó að tæplega 1.000 manns séu í sóttkví þá eru ennþá ca 360.000 sem eru ekki í sóttkví. Fólk er að skilja, taka saman og búa til nýjar fjölskyldur á hverjum einasta degi.

Ég er búin að vera fasteignasali í 17 ár sem þýðir að ég fór í gegnum hrunið. 2009 átti ég barn og tók m.a. niður tilboð á fæðingardeildinni þannig að ég hef prófað ýmislegt þegar kemur að því að selja fasteignir.

Okkar ráðlegging til allra í fasteignahugleiðingum er að halda sínu striki. Það er mikið framboð af eignum og gaman að vera kaupandi í dag. Nýleg vaxtalækkun Seðlabanka Íslands upp á 0,5% er að skila sér í vaxtalækkun á íbúðalánum sem þýðir að sjaldan hefur verið jafnhagstætt að taka nýtt lán og í dag.

Nýtilkomið samkomubann þýðir meiri dekurþjónusta fyrir kaupendur. Við hjá Húsaskjóli ætlum ekki að hafa opin hús og munum því eingöngu bjóða upp á einkasýningar og einnig verða videosýningar fyrir þá sem komast ekki á staðinn.

Þó að við séum stödd í hringiðunni akkúrat núna þá gengur þetta ástand yfir fyrr en síðar en á meðan skulum við passa okkur eins og við getum og treysta því að aðrir geri það líka. Brosum og munum handþvottinn og að sýna gagnkvæma tillitssemi


Aðrar færslur